Skip to main content
Category

Starfsmenn

Árshátíð Umslags BloggStarfsmenn
maí 15, 2018

Árshátíð Umslags

Annað hvert ár er árshátíð Umslags haldin erlendis og í þetta sinn varð borgin Brighton í Englandi fyrir valinu. Lagt var af stað á fimmtudagsmorgni og flestir komu sér þá vel fyrir á hótelinu og áttu svo frjálsan tíma það sem eftir lifði dags. Þessi ferð var þó frábrugðin þeim sem á undan hafa verið og lagt var upp með að hafa sem mestan tíma frjálsan fyrir sjálfan sig í skoðanir og innkaup.  Og það voru þónokkrir íslendingarnir sem við rákumst á í innkaupaferðum. Hótelstarfsfólkið elskar íslendinga. En við skoðuðum 162 metra útsýnisturn sem kallast 360° British Airways og er glerskáli sem ferðast upp og hægt er að skoða frábært útsýni allan hringinn úr 162 metra hæð yfir bæinn og ströndina. Nánar má skoða hér Árshátíðin sjálf var svo á laugardeginum þar sem við fórum öll saman út að borða. Eitthvað hafði pöntunin okkar týnst því enginn kannaðist við að værum á leiðinni en því var bjargað og fengu allir að borða. Nokkrir fylgdust svo með úrslitum Evróvision sem fór einmitt fram sama kvöld. Við starfsmenn Umslags viljum nota tækifærið og þakka starfsfólki WOW sem veitti okkur ýmsa þjónustu vegna ferðarinnar. Við héldum svo heim á sunnudaginum og tók við sumarkuldi og rigning. Já, það er alltaf gott að koma heim.
Öryggisdagur Umslags BloggStarfsmennViðurkenningar
október 4, 2016

Öryggisdagur Umslags

Öryggisdagur Umslags var haldin s.l. föstudag á Grand hótel. Starfsfólk Umslags var þar samankomið hluta af degi, þar sem farið var yfir ISO 27001 vottunina okkar ásamt öðrum skemmtilegheitum. Guðjón Viðar Valdimarsson frá Stika var okkur til halds og trausts ásamt Ingvari Hjálmarsyni fyrrum Gæðastjóra Umslags. Umslag er eina prentasmiðjan á Íslandi sem er ISO 27001 upplýsinga- og öryggisvottuð og höfum við verið vottuð síðan 2013. Vottunin nær yfir alla starfsemi Umslags og er endurnýjuð árlega af bresku staðlastofunni BSI sem gerir þá úttekt á öllum þáttum sem að vottuninni snúa. Umslag leggur mikla áherslu á að geta sýnt fram á að þeim kröfum sem settar eru fram í vottuninni sé framfylgt með viðeigandi hætti.  Slíkt sé vottur um metnað fyrirtækisin til að vera fremst í flokki fyrirtækja í prent- og gagnavinnslu
Óvissuferð BloggStarfsmennUmslag
apríl 20, 2016

Óvissuferð

Á hverju ári heldur starfsfólk Umslags í óvissuferð og er dagskránni haldið vandlega leyndri. Það var því spenntur hópur sem lagði af stað laugardaginn 16. apríl s .l. á vit óvissunar. Var brunað á tveim stórlega breyttum Ford Excursions bifreiðum frá Amazing Tours og var fyrsti viðkomustaðurinn Húsafell þar sem beið okkar glæsilegt hlaðborð í hádeginu. Að því loknu var haldið upp Langjökul og Íshellirinn skoðaður og var það mögnuð sjón og mælum við með að kíkja þangað. Þaðan var brunað beint á Laugarvatn og skelltum okkur í Fontana laugar þar sem gufuböðin voru skoðuð og spriklað í Laugarvatni. Það var ansi hressandi og að því loknu var keyrt og sungið hátt og snjallt á leið til Reykjavíkur og farið í kvöldmat á Eldsmiðjunni  Suðurlandsbraut. Flottur dagur eftir 11 tíma ferð með ótrúlegar minningar í farskeytinu. Enn einni óvissuferðinni var lokið, með vissu um, að hún yrði endurtekin að ári.
Nýr bókari BloggStarfsmennUmslag
mars 17, 2016

Nýr bókari

Nýr bókari hefur tekið til starfa hjá Umslag en Ágúst lét af störfum sl. mánuð.  Það er hún Anna Finnbogadóttir sem tók við af honum og hefur hafið störf. Anna er viðurkenndur bókari og  er með víðtæka reynslu og starfaði sem hópstjóri í rekstrardeild Íslandsbanka frá árinu 2007 og  sem fjármálafulltrúi hjá Samtökum starfsmanna á fjármálamarkaði frá árinu 1997-2007. Þá hefur hún setið ýmis námskeið og eru áhugamál hennar ferðalög, útivera, golf og barnabörnin auðvitað.  Einnig er Anna Mosaik leiðbeinandi og heldur námskeið þar sem ýmsir blómapottar og borð eru gerð.
Starfsgleði HeimsóknirStarfsmenn
nóvember 13, 2015

Starfsgleði

Sigríður Hulda náms- og starfsráðgjafi kom til okkar í heimsókn og hjálpaði okkur að takast á við álag og streitu í vinnu. Farið var yfir hrós og endurgjöf frá samstarfsfólki og einnig árangursríkar leiðir í upplýsingateymi innan fyrirtækisins. Lögð var áhersla á að draga fram það jákvæða við vinnustaðinn, hvað hver og einn er að leggja af mörkum til samvinnu og starfsgleði auk þess sem rætt var um lykilþætti í starfsánægju. Hvað þarf að standa vörð um - og hvað má bæta? Endað var á léttum veitingum og allir sammála um að dagurinn hafi verið fræðandi og uppbyggjandi.
Keilukeppni Umslags BloggStarfsmenn
nóvember 6, 2015

Keilukeppni Umslags

Hin árlega keilukeppni starfsmanna Umslags var haldin 30. október s. l. í Egilshöll.  Tvö lið kepptu til úrslita, og var mikil stemning meðal manna og kvenna og skrautlegir taktar hjá bæði í köstum og fatnaði. Í framhaldi fékk fólk sér mat og drykk og hafði af þessu hina bestu skemmtun um leið og verðlaunin voru veitt fyrir vinningsliðið og einstaklingsframtakið. Við bíðum að venju spennt eftir að taka þátt í mótinu á næsta ári.
Árshátíð Umslags BloggStarfsmenn
október 7, 2015

Árshátíð Umslags

Árshátíð Umslags var að þessu sinni haldin að Hótel Búðum á Snæfellsnesi. Byrjað var að fara í hellaskoðun hjá Vatnshelli sem er staðsettur í þjóðgarðinum á Snæfellsnesi. Þessi 8.000 ára gamli hellir er u.þ.b. 200 metra langur og 35 metra undir sjávarmáli. Þar er að sjá ótrúlega liti og skrautlegt hraun sem hefur myndast á þessum árþúsundum. Að því loknu var haldið á Hótel Búðir og slakað á í flottu umhverfi. Matseðillinn var "surf and turf" og súkkulaði kaka í desert. Að venju voru skemmtiatriði og var Jakob með svokallað pub quiz, Jóhanna og Hrönn sáu um happdrætti þar sem veglegir vinningar voru í boði frá góðum viðskiptavinum okkar. Og skemmtinefndin sá um rafræna Böggarann þar sem var gert góðlátlegt grín að starfsmönnum fyrirtækisins. Góð helgi að baki.
Fræðslustjóri að láni BloggStarfsmennUmslag
janúar 30, 2015

Fræðslustjóri að láni

Skrifað var undir samning á milli Umslags og Iðunnar fræðsluseturs um þátttöku í verkefninu Fræðslustjóri að láni.  Með þessu er unnið kerfisbundið að starfsmannaþróun innan fyrirtækisins og tekist á við þau verkefni sem fela í sér skipulagningu menntunar, þjálfunar og annað sem tengist uppbyggingu starfsmanna fyrirtækis eða stofnunar. Kerfisbundið er þá hæfni starfsfólks sem þarf að vera til staðar greind og hvernig hægt er að öðlast hana og ná árangri. Umslag tryggir því jákvæða þróun og uppbyggingu mannauðs í takt við kröfur markaðarins á hverjum tíma. Að verkefninu standa Starfsmenntasjóður verslunar- og skrifstofufólks og IÐAN fræðslusetur.
Þorra blótað BloggStarfsmenn
janúar 26, 2015

Þorra blótað

Að venju blótuðu starfsmenn Umslags Þorra föstudaginn 23. janúar. Hittumst við á skrifstofu Umslags og var byrjað að gæða sér á þorramat, ýmsum veigum og í framhaldi var farið í pub quiz með misjöfnum árangri. Það var hann Hjálmar Örn sem hélt quizið og voru það Höggormarnir sem unnu að þessu sinni. Að því loknu tók við söngur og ýmis annar hávaði. Eins og alltaf var þessi skemmtun til stórrar fyrirmyndar. Allir nutu stundarinnar og áttu í framhaldi góðar minningar af góðu kvöldi. Hlaðborðið Augu Vinningsliðið ásamt Hjálmari pub quiz gúrú
Árlega keilukeppnin Starfsmenn
nóvember 18, 2014

Árlega keilukeppnin

Hin árlega keilukeppni starfsmanna Umslags var haldin 24. október s. l. Þrjú lið kepptu til úrslita, og mátti sjá ýmsa liðlega takta þegar konur og menn köstuðu kúlum fram og aftur. Keppnin var afar hörð fram á það síðasta. Í framhaldi fékk fólk sér mat og drykk og hafði af þessu hina bestu skemmtun um leið og verðlaunin voru veitt fyrir vinningsliðið og einstaklingsframtakið ásamt mestu vonbrigðin, flottasta "múvið", og bjartasta vonin sem skiptist á milli tveggja aðila. Við bíðum spennt eftir að taka þátt í mótinu á næsta ári. Ágúst: mestu vonbrigðin Soffía: flottasta "múvið" Hrönn og Qihui: bjartasta vonin Vinningsliðið Eiríkur vinningshafi
Árshátíðarferð til Berlínar Starfsmenn
september 3, 2014

Árshátíðarferð til Berlínar

Annað hvort ár er árshátíð Umslags haldin erlendis og í þetta sinn varð borgin Berlín fyrir valinu. Lagt var af stað árla morguns og lent í borginni um hálf tólf. Þar tók á móti okkur Júlía Björnsdóttir sem var fararstjóri okkar í ferðinni. Hún byrjaði á því að fara með okkur í fjögurra tíma ferð þar sem skoðuð voru helstu kennileiti borgarinnar. Júlía jós af brunni sinnar þekkingar og þarna fengum við strax tilfinningu fyrir því hversu merkileg þessi borg er og einstök á alla lund. Föstudaginn notaði fólk á ýmsa vegu. Það var farið í hjólaferðir hingað og þangað og einhverjar sögur fóru af því að fólk hefði sést í verslunum. Um kvöldið var síðan árshátíðin okkar haldin á veitingastaðnum Don Giovanni  og tókst með miklum ágætum. Í framhaldi fóru sumir í klúbbaskoðanir en aðrir drógu sig til hlés eftir langan dag. Á laugardaginn var síðan farið með Júlíu um miðborg Berlínar og sem fyrr fór hún yfir sögu borgarinnar  og sýndi okkur allt það helsta sem sjá mátti í Nikiolai-hverfinu, á safnaeyjunni  og fór með okkur um háskólahverfið. Við starfsmenn Umslags viljum nota tækifærið og þakka starfsfólki WOW sem veitti okkur ýmsa þjónustu vegna ferðarinnar. Þá fær Júlía sérstakar þakkir fyrir frábæra fararstjórn og umfangsmikla þekkingu á borg og sögu. Við héldum svo heim á sunnudeginum og á móti okkur tók stórviðri og gos. Já, það var gott að koma heim eftir frábæra ferð.
Harðskeyttir Hollendingar Starfsmenn
júlí 7, 2014

Harðskeyttir Hollendingar

Það hefur væntanlega ekki farið fram hjá neinum að HM í fótbolta stendur yfir um þessar mundir. Marco Vroomen, verkstjóri í pökkunardeild hefur fylgst vandlega með sínum mönnum Hollendingum, enda hefur þeim gengið vonum framar. Við starfsmenn Umslags segjum stundum að það sé meiri Íslendingur í Marco einum saman en okkur öllum hinum samanlagt. Hann stóð hins vegar ekki frammi fyrir því erfiða vandamáli hvort hann ætti að halda með Íslendingum eða löndum sínum Hollendingum. Það vantaði hársbreidd að íslenska landsliðinu tækist það ætlunarverk að komast á HM. Marco hefur sett upp skreytingu í Umslagi til að minna okkur á hverjir gætu hampað bikarnum góða. Og eins og sjá má á myndinni er hann í skýjunum vegna þessa frábæra árangurs. Nú er bara að sjá hvernig liðinu gengur á lokasprettinum. Okkur grunar að hollenska liðið gæti átt fleiri aðdáendur hjá starfsfólki Umslags.
25 ára starfsafmæli StarfsmennUmslag
júní 24, 2014

25 ára starfsafmæli

Jóhannes Vilhjálmsson (Jói), þjónustustjóri Umslags á 25 ára starfsafmæli á þessu ári. Af þessu tilefni áttum við ánægjulegan dag  fyrir nokkru og Sölvi Sveinbjörnsson, framkvæmdastjóri færði Jóa gjöf sem hann mun örugglega nýta sér í laxveiðinni í sumar, enda snjall veiðimaður. Jói hefur verið starfsmaður hjá Umslagi nánast frá upphafi og sinnt flestum þeim þeim störfum sem vinna hefur þurft í gegnum tíðina. Í allnokkur ár hefur hann sinnt starfi þjónustustjóra Umslags, og aðstoðað viðskiptavini okkar á ýmsa lund. Við höfum það eftir öruggum heimildum að Jói hafi reynst okkar viðskiptavinum einstaklega vel, og það er ekki óvanalegt þegar við starfsmennirnir komum í heimsókn til viðskiptavina, að beðið sé um sérstaka kveðju til hans. Umslag vill nota tækifærið og þakka Jóa fyrir vel unnin störf í gegnum tíðina og vonum að við njótum starfskrafta hans sem lengst.
Gildi Umslags yfirfarin HeimsóknirStarfsmenn
júní 11, 2014

Gildi Umslags yfirfarin

Líkt og mörg önnur fyrirtæki hefur Umslag sett sér gildi sem við reynum eftir bestu getu að fylgja. Gildin okkar eru: Þjónusta – lausnir – traust – samheldni. Til að skerpa á þessari gildisvinnu okkar fengum við Maríu Árnadóttur markþjálfa til okkar til að vinna frrekar með okkur í gildismálum. Starfsfólkinu var skipt upp í fjóra hópa og hver hópur átti í framhaldi að rökstyðja styrk þess gildis sem honum var úthlutað. Í framhaldi átti einn úr hverjum hópi að útskýra þennan rökstuðning. Þessi vinna skilaði mjög góðum árangri og mjög gaman að sjá hvernig hver hópur fyrir sig kynnti niðurstöður sínar. Þessi vinna mun örugglega styðja enn frekar við þá vinnu sem við starfsmennirnar innum af hendi til að hafa gildin okkar virk. Stefnt er á, að svona yfirferð verði gerð að reglulegum atburði.
Óvissuferð Umslags BloggStarfsmenn
mars 21, 2014

Óvissuferð Umslags

Á hverju ári heldur starfsfólk Umslags í óvissuferð og er dagskránni haldið vandlega leyndri. Það var því spenntur hópur sem lagði af stað laugardaginn 15. mars s .l. á vit óvissunar. Fyrsti viðkomustaðurinn var við Gullfoss og Geysi þar sem sjóðheit kjötsúpa var snædd og að því búnu var Gullfoss skoðaður í nístingskulda. Að því loknu stóð til að fara á snjósleða en vegna veðurs var ekki hægt að framkvæma það og fór þá bílstjórinn okkar hjá Amazingtours í smá jeppaferð og var rúllað upp í einn snjókarl á toppnum. Þaðan var brunað beint á Laugarvatn og skelltum okkur í Fontana laugar þar sem gufuböðin voru skoðuð og spriklað í Laugarvatni. Það var ansi kalt og hressandi. Að því loknu var farið í kvöldmat á Cafe Mika Reykholti. Eftir góðan snæðing var keyrt í rólegheitum heim með viðkomu í Hveragerði þar sem stoppað var á einum veitingastað og haldin var stutt pílukeppni við mikinn fögnuð. Hópurinn kom svo til Reykjavíkur eftir 11 tíma ferð með ótrúlegar minningar í farskeytinu. Enn einni óvissuferðinni var lokið, með vissu um, að hún yrði endurtekin að ári.
Starfsnám hjá Umslagi BloggStarfsmenn
mars 13, 2014

Starfsnám hjá Umslagi

Pálmi Sveinsson í starfsnámi hjá Umslagi Pálmi Sveinsson er nemandi í Tækniskólanum og er á þriðja ári í starfsbraut skólans. Undanfarnar vikur hefur hann verið í starfsnámi hjá okkur í Umslagi ásamt umsjónarkennaranum sínum sem heitir Kristín Jónsdóttir. Pálmi og Kristín koma til okkar á þriðjudagsmorgnum og eru hjá okkur í rúmlega tvo tíma.  Pálmi hefur verið að vinna við alls konar frágangsvinnu og segir að það hafi verið mjög gaman að vinna svona störf. Verkstjórarnir Pálmi Sigurðsson og Marco Vroomen hafa verið Pálma innan handar í verkefnunum og Pálmi segir að það sé nú ekki leiðinlegt að vera með þeim strákum.  Við hjá Umslagi höfum einnig haft mikla ánægju af heimsóknum Pálma og Kristínar og hlökkum til þriðjudaganna. Það eru forréttindi að fá svona gott fólk til okkar.  Ámyndinni má sjá frá vinstri þá nafnanna Pálma Sigurðsson og Pálma Sveinsson, Kristínu Jónsdóttur umsjónarkennara og Marco Vroomen.