Skip to main content

Árshátíðarferð til Eyja

By október 4, 2013Starfsmenn

Starfsmenn Umslags hafa haft þann háttinn á, að halda árshátíð sína á landsbyggðinni annað hvert ár og í þetta sinn urðu Vestmannaeyjar fyrir valinu. Lagt var af stað til Eyja föstudaginn28. september og áttum í framhaldi ánægjulegt kvöld saman. Á laugardagsmorgninum var síðan farið í frábæra tuðruferð með fyrirtækinu Rib-safari  þar sem siglt var í kringum eyjarnar ásamt því að skoða hella sem leyndust víða í úteyjunum. Þarna fengum við að heyra ýmsar mjög skemmtilegar sögur, sem kryddaðar vou að hætti hússins og jók enn frekar á ánægjuna.

Eftirmiðdagurinn var síðan notaður til að skoða Heimaey og heimsækja söfn. Árshátíðin var svo haldin á Hótel Vestmannaeyjum þar sem hópurinn gisti. Allt var þar til stórrar fyrirmyndar og viljum við Umslags-fólk skila sérstökum kveðjum til hótelstjórans og hans fólks. Það er alltaf ánægjulegt að eiga viðskipti við fólk sem hugsar og framkvæmir í lausnum en þekkir ekki til vandamála.

Þegar líða tók á kvöldið brugðum við undir okkur betri fætinum og skelltum okkur á lundaballið, en það var einmitt haldið þessa helgi. Var það stigin danslist fram eftir nóttu.

Haldið yfir á meginlandið um hádegi á sunnudeginum og allan þennan tíma sýndu veðurguðirnir á sér sínar bestu hliðar. Sól og blíða allan tímann. Þetta var ferð sem við munum öll muna eftir.