Skip to main content

sumar2014_2Leiðbeiningar til að viðhalda kryddjurtinni:
Vökva vel því hún má ekki þorna
Gott að úða yfir öðru hvoru
Geyma á sólríkum stað
Æskilegt að setja áburð 1x viku

Hvaða kryddjurt fékkst þú ? Rósmarin eða Oregano? Þar sem við pöntuðum rósmarin og myntu merktum við plönturnar þannig, en fengum svo upplýsingar að okkur hafi verið sent Rósmarin og Oregano. Biðjumst við velvirðingar á því og höfum því 3 uppskriftir hérna inni ef einhver vill verða sér úti um myntu og smella í Mojhito. Verði ykkur að góðu =)

Rósmarin eða Rosmarinus er ilmandi sígrænn runni af varablómaætt sem vex víða við Miðjarðarhaf og eru blöðin notuð sem krydd, fersk eða þurrkuð.
Hér er góð uppskrift af Lambalæri með rósmarin og hvítlauk

Lambalæri er líklega vinsælasta sunnudagssteik Íslendinga. Hér er hún krydduð með svolítið grískri aðferð, fullt af hvítlauk ásamt kryddjurtum og sítrónu.

  • 1 lambalæri
  • 1 sítróna
  • 1 hvítlaukur
  • 3 msk fínsaxað, ferskt rósmarín
  • 1 msk þurrkuð salvía
  • nýmulinn pipar
  • Maldonsalt/sjávarsalt

Hreinsið utan af hvítlauksgeirunum og saxið þá fínt. Fínsaxið rósmarín. Skerið nokkrar grunnar raufar í lærið þversum. Pressið safann úr sítrónunni yfir lærið og nuddið því upp úr safanum. Blandið kryddjurtunum og hvítlauknum saman og nuddið vel inn í lærið. Nuddið vel af salti og pipar inn í lærið. Látið standa við stofuhita  í um 30 mínútur. Setjið á fat og inn í 200 gráðu heitan ofn. Eftir um hálftíma er hitinn lækkaður í 175 gráður og lærið eldað í um klukkustund í viðbót. Athugið þó að stærð lærisins skiptir máli. Hér er miðað við 2,2-2,5 kílóa læri sem ætti að vera fulleldað, um medium rare og vel það miðað við þennan tíma. Takið lærið út úr ofninum og látið standa í um 15 mínútur áður en að það er sneitt niður. Gott meðlæti væru t.d kramdir tómatar og kartöflubátum bökuðum í rósmarín og olíu.

Oregano
Óreganó-kjúklingur. oregano
Það eru óreganó og sítróna sem stjórna bragðinu í þessum bragðmikla, suður-evrópska kjúklingarétti. Lykilatriði er að elda hann lengi þannig að kartöflurnar sjúgi í sig safann og kryddbragðið.

1 kjúklingur, bútaður í 8-10 bita
50 g smjör
1 dl ólívuolía
1 pakki ferskt óreganó
1 sítróna
Salt og pipar

Skerið kartöflurnar í tvennt eða fernt eftir stærð (eða í þykkar skífur) og setjið í ofnfast fast ásamt kjúklingabitunum. Saltið og piprið.

Bræðið smjörið og blandið olíunni og safanum úr sítrónunni saman við. Það er einnig gott að setja örlítið af rifnum sítrónuberki með. Hellið yfir kjúklinginn og kartöflurnar. Saxið óreganólaufin og bætið þeim einnig við. Veltið kartöflunum og kjúklingunum vel saman við smjörblönduna og kryddjurtirnar.

Setjið álpappír yfir fatið og eldið í 90 mínútur í 200 gráða heitum ofni. Takið þá álpappírinn af og eldið í um 15 mínútur til viðbótar eða þar til kartöflur og kjúklingur hafa tekið á sig góðan lit.

Mynta
Það þarf varla að kynna Mojito fyrir Íslendingum, þvílíkar eru vinsældir þessa unaðslega drykk á börum og veitingahúsum. Þetta er kokkteill í flokki svokallaðra “smash” drykkja þar sem uppistaðan er sykur, mynta, sterkt áfengi og mulinn ís. Best er að gera þennan drykk í háu highball-glasi.

Hér er klassísk Mojito-uppskrift:
4 cl. af gylltu rommi
Safi úr hálfri límónu
6-8 myntulauf og fleiri til skreytingar
2 tsk. hrásykur
Skvetta af sódavatni

Kreystið safann úr límónunni í glasið. Bætið í sykri og myntulaufunum og blandið vel saman. Það þarf að merja myntulaufin aðeins og best er að nota til þess sérstakan Mojito-staut sem hægt er að kaupa í betri búsáhaldabúðum. Sé slíkur ekki til staðar er hægt að nota skeið. Fyllið glasið af klakamulningi, bætið romminu saman við og hrærið. Hellið loks skvettu af sódavatni saman við og skreytið með myntulaufum og afganginum af límónunni.

 

Njótið vel
Starfsfólk Umslags.