Á hverju ári heldur starfsfólk Umslags í óvissuferð og er dagskránni haldið vandlega leyndri. Það var því spenntur hópur sem lagði af stað laugardaginn 9. mars s .l. á vit óvissunar. Fyrsti viðkomustaðurinn var toppurinn á Úlfarsfelli, þar sem útsýnið yfir borgina er alveg einstakt. Vel falin náttúruperla við þröskuld Stór Reykjavíkursvæðisins.
Að því loknu var ekið til Þingvalla og beygt inn á Uxahryggjaveginn. Þá fór nú kliður um mannskapinn og ýmsar getgátur hvert næst yrði haldið. Og áfram var ekið eins og leið láinn Kaldadalinn og innan tíðar fór að glitta í Langjökul, en þangað var ferðinni heitið. Og ekki skemmdi veðrið, sól og blíða. Þegar á jökulinn var komið, var dekkjaþrýstingi breytt í samræmi við ferðaáætlun og síðan brunað af stað og alla leið upp á topp. Við blasti ólýsanlegt fallegt útsýni hvert sem litið var. Þarna var snæddur léttur hádegisverður og boðið var upp á vínsmökkun. Má því segja að allir hafi verið hátt uppi í eiginlegri og óeiginlegri merkingu.
Að þessu loknu var ekið yfir ár og aðrar ófærur og komið niður í Borgarfjörð. Ekið var inn Skorradalinn og yfir Draghálsinn og þá blasti Hvalfjörðurinn við. Og það var ekki leiðinlegt að aka þennan fallega fjörð í afar rólegri umferð og stoppa þar sem við átti.
Hópurinn kom svo til Reykjavíkur eftir 10 tíma ferð með ótrúlegar minningar í farskeytinu. Enn einni óvissuferðinni var lokið, með vissu um, að hún yrði endurtekin að ári.