Annað hvert ár er árshátíð Umslags haldin erlendis og í þetta sinn varð borgin Varsjá fyrir valinu. Lagt var af síðdegis á föstudegi og lent í borginni um kvöldið. Flestir komu sér þá vel fyrir á hótelinu og hittust svo í mat og drykk.
Á laugardeginum var hádegismatur fyrir alla og þaðan var farið í rútuferð í gamalli Skoda rútu um bæinn og sagan skoðuð með skemmtilegum leiðsögumanni. Þarna fengum við strax tilfinningu fyrir því hversu merkileg þessi borg er og einstök á marga lund. Stoppað var á hinum ýmsu stöðum og menningin fest á filmu og veitingar teigaðar. Um kvöldið var svo sjálf árshátíðin þar sem hist var á gömlum veitingastað og borðaður yndislegur matur og skemmtilegar sögur voru upprifjaðar og sumir tóku lagið.
Sunnudagurinn var svo notaður hjá flestum í búðarráp og einhverjir fóru á útitónleika.
Við starfsmenn Umslags viljum nota tækifærið og þakka starfsfólki WOW sem veitti okkur ýmsa þjónustu vegna ferðarinnar. Við héldum svo heim á mánudeginum og tók við haustveðráttan. Já, það var gott að koma heim eftir frábæra ferð.