Annað hvort ár er árshátíð Umslags haldin erlendis og í þetta sinn varð borgin Berlín fyrir valinu. Lagt var af stað árla morguns og lent í borginni um hálf tólf. Þar tók á móti okkur Júlía Björnsdóttir sem var fararstjóri okkar í ferðinni. Hún byrjaði á því að fara með okkur í fjögurra tíma ferð þar sem skoðuð voru helstu kennileiti borgarinnar. Júlía jós af brunni sinnar þekkingar og þarna fengum við strax tilfinningu fyrir því hversu merkileg þessi borg er og einstök á alla lund.
Föstudaginn notaði fólk á ýmsa vegu. Það var farið í hjólaferðir hingað og þangað og einhverjar sögur fóru af því að fólk hefði sést í verslunum. Um kvöldið var síðan árshátíðin okkar haldin á veitingastaðnum Don Giovanni og tókst með miklum ágætum. Í framhaldi fóru sumir í klúbbaskoðanir en aðrir drógu sig til hlés eftir langan dag.
Á laugardaginn var síðan farið með Júlíu um miðborg Berlínar og sem fyrr fór hún yfir sögu borgarinnar og sýndi okkur allt það helsta sem sjá mátti í Nikiolai-hverfinu, á safnaeyjunni og fór með okkur um háskólahverfið.
Við starfsmenn Umslags viljum nota tækifærið og þakka starfsfólki WOW sem veitti okkur ýmsa þjónustu vegna ferðarinnar. Þá fær Júlía sérstakar þakkir fyrir frábæra fararstjórn og umfangsmikla þekkingu á borg og sögu. Við héldum svo heim á sunnudeginum og á móti okkur tók stórviðri og gos. Já, það var gott að koma heim eftir frábæra ferð.